Um Líf - og umhverfisvísindastofnun

Meginmarkmið Líf- og umhverfisvísindastofnunar Háskóla Íslands (LUVS) er að efla rannsóknir á sviði líf- og umhverfisvísinda og með því leggja sitt að mörkum til að Háskóli Íslands nái langtímamarkmiðum um samkeppnishæfni gagnvart bestu rannsóknarháskólum heims. Þessar rannsóknir stuðla að uppbyggingu atvinnulífs, nýsköpun og verðmætasköpun í þágu íslensks samfélags í anda markmiða Háskólans.

 

Rannsóknir

Rannsóknir á vettvangi stofnunarinnar fara fram á tveim stofum, líffræðistofu og land- og ferðamálafræðistofu. Hópar innan stofanna sinna rannsóknum sem oftast falla undir eitt eða fleiri fræðasvið. Einnig er rannsóknarfólk LUVS í fjölþættu samstarfi, bæði við erlenda og innlenda aðila og eru niðurstöður rannsókna kynntar með fyrirlestrum, ráðstefnum og útgáfu í bókum og í ritrýndum fagtímaritum.

Líffræðistofa

Á  stofunni fara fram lífvísindarannsóknir á sviði:

 • Vistfræði og þróunarfræði
 • Sjávar og fiskalíffræði
 • Sameindalíffræði og örverufræði
 • Umhverfisfræði og loftslagsbreytinga

 

 

Image
""

Land- og ferðamálafræðistofa

Á Land- og ferðamálafræðistofu fara fram rannsóknir á sviði:

 • Náttúru og landslags
 • Samfélags og hreyfanleika
 • Ferðamennsku og sjálfbærni
 • Umhverfisbreytinga
 • Náttúruvá og samfélags
 • Norðurslóða
 • Landupplýsinga og fjarkönnunar
 • Landnýtingar og skipulags
 • Jarðvegs og gróðurfars
Image
""

Samkvæmt Reglum Háskólans er hlutverk stofnunarinnar:

a) að efla rannsóknir á fræðasviðum sínum við Háskóla Íslands,

b) að samhæfa rannsóknir og efla tengsl rannsókna og kennslu á fræðasviðum sínum við Háskóla Íslands,

c) að styðja kennslu og þjálfun í vísindalegum vinnubrögðum og veita nemendum í framhaldsnámi aðstöðu og búnað til rannsóknarstarfa eftir því sem kostur er,

d) að stuðla að samstarfi við innlenda og erlenda rannsóknaraðila á fræðasviðum sínum og sterkum tengslum við atvinnu- og þjóðlíf,

e) að sinna þjónustuverkefnum á fræðasviðum sínum eftir því sem unnt er og við á,

f) að kynna niðurstöður rannsókna á fræðasviðum sínum,

g) að veita upplýsingar og ráðgjöf varðandi málefni sem snerta fræðasvið stofnunarinnar,

h) að gangast fyrir námskeiðum, fyrirlestrum og ráðstefnum sem geta stuðlað að aukinni þekkingu á fræðasviðum stofnunarinnar, til heilla fyrir þjóðina og vísindasamfélagið.

LUVS var stofnuð á Degi íslenskrar náttúru, 16. september 2011 sem rannsóknarvettvangur starfsmanna Líf- og umhverfisvísindadeildar H.Í., en það eru kennarar í líffræði, landfræði og ferðamálafræði auk verkefnaráðinna sérfræðinga og framhaldsnema. Fram að því höfðu kennarar í land- og ferðamálafræði verið utan stofnana en kennarar í líffræði höfðu aðstöðu við Líffræðistofnun.

Forveri LUVS var Líffræðistofnun Háskólans. Starfsfólk Líffræðistofnunar sinnti rannsóknum á líffræði, bæði grunnrannsóknum og þjónusturannsóknum. Stofnunin gaf út fjölrit og skýrslur, auk þess að hýsa rannsóknaraðstöðu. Kennsla í líffræði við HÍ hófst árið 1968.

Þóra Ellen Þórhallsdóttir skrifaði grein um sögu kennslu í líffræði við HÍ sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins 12. desember 1998.