
Nýjar og byltingakenndar rannsóknir vísindamanna við Háskóla Íslands varpa algerlega nýju ljósi á 1100 ára áhrif þorskveiða hér við land á tegundina. Í þeim kemur fram að þorskur á 10., 11. og 12. öld hafi verið að meðaltali fjórðungi stærri og allt að þrisvar sinnum eldri en einstaklingar í nútíma. Þorskur á landnámsöld óx hinsvegar mun hægar en í nútíma en fjöldi einstaklinga í stofninum hafði veruleg áhrif á aðgengi að fæðu. Auknar veiðar á 14. öld höfðu strax áhrif á stærð stofnsins en margt bendir til að veiðar Evrópuþjóða á Íslandsmiðum fyrr á öldum hafi verið mun meiri en áður var talið. Þetta kemur fram í grein sem vísindafólkið birtir í hinu virta tímariti Science Advances sem kom út í gær.
Hópurinn sem stóð að rannsókninni er þverfaglegur en Steven Campana, prófessor í sjávarlíffræði við HÍ, leiddi rannsóknina. Aðrir helstu rannsakendur innanlands eru Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, líffræðingur og forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ í Bolungarvík, Ragnar Edvardsson, fornleifafræðingur við sama setur, og Árni Daníel Júlíusson, sagnfræðingur hjá Stofnun Vigdísar Finnbogardóttur og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, og Einar Hjörleifsson hjá Hafrannsóknastofnun.
Veiðar hefjast fyrr en áður var talið
Að mati vísindafólksins gefa þessar rannsóknaniðurstöður einstaka innsýn í náttúrulegan stofn áður en áhrif veiða koma til og sömuleiðis hvernig auknar veiðar höfðu áhrif á stofninn strax á 14. öld. Hægari vöxtur sýnir svo að dæmi sé tekið þéttleikaháð áhrif, þ.e. vegna gífurlegrar stærðar stofnsins á þessum tíma hefur verið meiri samkeppni einstaklinga um fæðu.
„Það kom nokkuð á óvart að breytingar á þorskstofninum hófust þegar á 14.-15. öld, en þá þegar aukast þorskveiðar til að mæta eftirspurn eftir skreið á Evrópumörkuðum. Þetta sést á því að dánartíðni í þorskstofninum hækkaði,“ segir Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir líffræðingur við HÍ.
„Dánartíðnina er hægt að reikna út frá aldurssamsetningu stofnsins en í náttúrulegum stofni án veiðiálags eru mun fleiri eldri einstaklingar. Þetta er gífurlega mikilvæg niðurstaða bæði til að skilja umfang sögulegu veiðanna en líka þar sem náttúrleg dánartíðni þorskstofnsins er nauðsynleg við mat á stofninum í nútíma. Hingað til hefur verið ómögulegt að sannreyna hver dánartíðnin var áður en veiðar hófust.“
Kvarnir eru eins og minniskubbur um líf þorsksins
Við þessa rannsókn á stofnvistfræði þorsks allt frá landnámstímum fram á okkar daga voru notaðar kvarnir úr þorskhausum frá fornleifauppgreftri í verstöðvum. Að mati vísindafólksins undirstrika niðurstöðurnar hvernig þorskur við Ísland á 10. öld var mun stærri og eldri en í nútíma, sem endurspeglar takmarkað veiðiálag á fyrstu árhundruðum eftir landnám en einnig áhrif veiða strax á 14.-15. öld.
Guðbjörg Ásta segir að Steven Campana, prófessor í sjávarlíffræði, komi inn í verkefnið með gífurlega reynslu af notkun kvarna í fiskifræðilegum rannsóknum sem var nálgunin sem jók gríðarlega gildi verkefnisins fyrir fiskifræði nútímans.
Steven segir að fjöldi kvarna hafi fundist við fornleifauppgröftinn í verstöðvunum. Þessar stöðvar hafi verið nýttar til útræðis þegar við landnám og síðan áfram sumar hverjar langt fram á tuttugustu öldina. Upplýsingar úr kvörnunum hafi verið notaðar til að endurgera stofnvistfræði þorskstofnsins við Ísland allt frá landnámi.
„Í raun eru kvarnirnar eins og minniskubbur um líf þorsksins sem hægt er að nálgast í þessum steinum. Þorskur og allir aðrir fiskar hafa kvarnir sem eru steinar í pokalaga líffærum eða skjóðum í innra eyra beinfiska. Kvarnir eru mjög mikið notaðar við fiskifræðirannsóknir í nútíma og eru forsenda stofnmats flestra fiskistofna.”
Guðbjörg Ásta tekur undir þetta og segir að kvarnirnar vaxi í takt við vöxt fiskanna sjálfra, hratt á sumrin en hægt á veturna. Í kvörnunum myndist því greinanlegir árhringir sem hægt sé að telja til að lesa aldur fisksins og mæla til að meta vöxt hvers árs.
Upphafið í fornleifarannsókn í verstöðvum vestur á fjörðum
Upphaf þessarar rannsóknar er afar áhugavert en verkefnið á sér langan aðdraganda. Það hófst með doktorsrannsókn Ragnars Edvardssonar fornleifafræðings á fornum verstöðvum á Íslandi, m.a. í Skálavík og í Breiðuvík. Rannsóknir Ragnars vöktu ekki einungis athygli á þorskveiðum fyrr á öldum heldur líka á þeim gífurlega mikilvæga líffræðilega efniviði sem fannst í þessum verstöðvum.
„Það var augljóst með mínum rannsóknum að þróun íslensks samfélags og þorskstofnins var nátengd, að minnsta kosti frá seinni hluta 12. aldar,“ segir Ragnar þegar hann er spurður um sinn hlut í rannsókninni.
„Því var nauðsynlegt að rannsaka stofnvistfræði þorsks frá upphafi landnáms til að meta áhrif hugsanlegra breytinga á þorskstofninum á íslenskt samfélag. Að auki var mikilvægt að reyna að fá hugmynd um umfang veiða erlendra þjóða við Ísland fyrr á öldum, en áhrif þeirra bæði á íslenskt samfélag og þorskstofninn sjálfan hafa lengi verið vanmetin.“