Ný bók - ferðaþjónusta á strandsvæðum Norðurlanda
Nýlega kom út bókin Nordic Coastal Tourism: Sustainability, Trends, Practices, and Opportunities hjá bókaforlaginu Springer. Þetta er ritstýrt verk sem inniheldur 17 ritrýnda kafla sem fjalla um þróun, áhrif og möguleika fyrir ferðaþjónustu á strandsvæðum Norðurlanda. Ritstjórarnir, Christian Dragin-Jensen, Grzegorz Kwiatkowski og Ove Oklevik koma frá Danmörku og Noregi en kaflahöfundar koma auk þess frá öllum Norðurlöndum. Þrír kaflar fjalla um ferðaþjónustu á Íslandi sem vert er að vekja sérstaka athygli á.
Gunnar Þór Jóhannesson, prófessor við Háskóla Íslands, Laufey Haraldsdóttir, lektor við Háskólann á Hólum og Jessica Aquino, dósent við sama háskóla eru höfundar að kaflanum Navigating Sustainability: Meaning and Manifestation of Sustainable Coastal Tourism in Northwest Iceland. Í kaflanum er rýnt í viðhorf og skilning hagaðila á Norðvesturlandi á sjálfbærni og hvernig þeir upplifa tengsl milli ferðamálastefnu íslenskra stjórnvalda og vinnu á svæðinu að þróun sjálfbærrar ferðaþjónustu. Íslensk stjórnvöld hafa nýlega skilgreint sjálfbærni sem leiðarljós í stefnu sinni um þróun ferðaþjónustu til 2030 og því er áhugavert að greina hvort og hvernig þá áherslu sé að finna í vinnu sveitarfélaga í einstökum landshlutum. Rannsóknin dregur fram að sveitarfélög eru í ólíkri aðstöðu til að tileinka sér og fylgja eftir hugmyndum um sjálfbærni. Ástæðurnar eru m.a. að skilgreiningar og skilningur á hugtakinu sjálfbærni eru margar sem gerir það að verkum að óvissa ríkir um heppilegar og árangursríkar aðgerðir. Stjórnvöld hafa heldur ekki skýrt nægilega vel hvernig hægt er að vinna á vettvangi sveitarfélaga að háleitum hugmyndum um að Ísland verði leiðandi í sjálfbærni.
Anna Karlsdóttir, dósent við Háskóla Íslands er höfundur kaflans Cruise Tourism and Sustainability Questions in Remote Arctic Regions – Ísafjörður and East Greenland. Skemmtiskipasiglingar á norðurslóðum hafa farið hratt vaxandi á síðustu árum, að undanteknum tíma Kórónuveirufaraldursins. Vöxtur þessarar ferðamennsku hefur verið töluvert í umræðunni og með sífellt stærri skipum verða skipakomur meira áberandi og geta smásamfélaga til að anna þúsundum farþega í einu svo vel sé, vekur upp spurningar. Komur skemmtiferðaskipa skapa tekjur í mörgum strandsamfélögum sem annars fengju ekki hlutdeild í ferðaþjónustu en á sama tíma er ljóst að þær geta valdið troðningi og rutt annarri, arðbærari starfsemi í ferðaþjónustu úr vegi. Í kaflanum er fjallað um hvernig viðhorf til áhrifa skemmtiferðaskipa á samfélög og viðkomuhafnir hafa breyst hjá íbúum og hagaðilum undanfarin 20 ár með sérstakri áherslu á Austur Grænland og Ísafjörð. Þýðingarlaust er að reyna að skilja sjálfbæra þróun skemmtiskipa ferðamennsku almennt en horfa þarf á staðbundna sjálfbærni hvers staðar og svæðis fyrir sig. Færð eru rök fyrir því að frekari samanburðarrannsókna sé þörf til að greina og meta leiðir til stefnumörkunar og áhrif þeirra á afskekkt samfélög.
Edita Tverijonaite nýdoktor við Háskóla Íslands og Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands skrifa saman kaflann Challenges of Overtourism in Coastal Iceland. Hugtakið overtourism eða offerðamennska er æ oftar notað til að lýsa neikvæðum áhrifum vaxtar ferðaþjónustu sem birtist helst í átroðningi og mannþröng á vinsælum áfangastöðum, ruðningsáhrifum ferðaþjónustu á húsnæðismarkaði og því að almannarými er hannað og skipulagt útfrá hugmyndum um þarfir og væntingar ferðafólks fremur en með þarfir íbúa í huga. Í kaflanum er leitast við að gefa dýpri innsýn í einkenni og ástæður offerðamennsku á Íslandi. Edita og Anna Dóra draga fram að mikil ársíðasveifla í gestakomum sé helsti áhrifaþáttur offerðamennsku og að þau sveitarfélög sem fái flestar gestakomur standi frammi fyrir miklum áskorunum við að taka á móti gestum sem og að sinna á sama tíma þörfum íbúa og þeirra sem starfa, oft tímabundið, í ferðaþjónustu. Í ljósi þess að væntingar eru um enn meiri vöxt ferðaþjónustu verða þessar áskoranir áfram til staðar og það er ekki ljóst hvernig stefna stjórnvalda um sjálfbæra þróun ferðaþjónustu mun styðja við að mæta þeim.