MYND/Francesco Ungaro/Unsplash

Fræðafólk við Háskóla Íslands og Háskólann á Hólum tekur þátt í þverfaglegu rannsóknarverkefni þar sem sjónum er beint að mótun sameiginlegra leiða til sjálfbærra atvinnuhátta á norðurslóðum með því að byggja brýr milli vísindalegrar og staðbundinnar þekkingar. Verkefnið nefnist ArcticKnows og nýtur stuðnings Horizon Europe áætlunar Evrópusambandsins (Innovation Action).

Þátttakendur eru átta frá sjö löndum. Rannsóknastofnun Finnlands um náttúru og auðlindir (LUKE) leiðir verkefnið en auk Háskóla Íslands og Háskólans á Hólum koma fulltrúar frá Umeå-háskólanum í Svíþjóð, Álaborgarháskóla í Danmörku, Nattúrufræðistofnun Grænlands, Nofima í Noregi og Touch TD Ltd í Bretlandi að verkefninu. Innan Háskóla Íslands koma þær Anna Karlsdóttir dósent og Rannveig Ólafsdóttir prófessor, báðar við Líf- og umhverfisvísindadeild, að verkefninu.

Meginmarkmið verkefnisins er að efla getu strandsamfélaga á norðurslóðum til að taka virkan þátt í að móta endurnærandi hagkerfi og lífsviðurværi á jafnréttisgrunni með því að ýta undir samstarf og samræður á milli heimafólks og vísindasamfélagsins um vistvæn og staðbundin hagkerfi sem taka mið af sögu og menningu hvers samfélags fyrir sig. Áhersla verður lögð á samnýtingu staðbundinnar þekkingar, bæði frá frumbyggjum og öðru heimafólki, á staðháttum og siðvenjum annars vegar og þekkingu og aðferðum vísindasamfélagsins hins vegar við sköpun nýrrar þekkingar. Í verkefninu verður unnið með fjórum samfélögum, Kujataa (Grænland), Varangerfjörður (Noregur), Vindelälven–Juhttátahkka (Svíþjóð) og Inari (Finnland) þar sem helstu atvinnugreinarnar eru náttúrutengd ferðaþjónusta, landbúnaður, fiskveiðar og aðrar árstíðabundnar atvinnugreinar.

Samfélagið er virkur þáttakandi og gögn eru opin og gegnsæ

Samlíf ólíkra tegunda hefur mikið vægi í verkefninu ArcticKnows og byggst á virðingu fyrir vistkerfum, dýrategundum og staðbundnum lífsháttum. Dýr, plöntur, vatnasvið, jöklar og vistkerfi eru þannig ekki einungis auðlindir heldur lifandi sambönd sem hafa áhrif á aðstæður og lífshætti á hverju svæði fyrir sig. Þannig verða svæði aðeins raunverulega lífvænleg þegar saman fer valdefling andlegra og menningarlegra gilda og virðing og verndun, t.d. hrygningarstöðva, farleiða villtra dýra og annarra vera sem ekki teljast til mannkyns.

Með því að leggja áherslu á samtal heimafólks, frumbyggja og vísindamanna tengir ArcticKnows staðbundnar hugmyndir, sögur og aðferðir frumbyggja við vísindalega þekkingu. Væntingar eru um að afurðir verkefnisins verði m.a. aðferðarfræði þar sem ný þekking getur orðið til út frá samvinnu þessara ólíku þekkingarkerfa í stað þess að vísindaþekking ráði ein för. Má ætla að slík nálgun hafi hagnýtan ávinning, sem gæti verið framlag til skýrari svæðisbundinnar stefnumótunar og haft áhrif á alþjóðlegar áætlanir um vistvæn hagkerfi og félags- og vistfræðilegt réttlæti.

Niðurstöður verkefnisins verða birtar opinberlega, en viðkvæm gögn verða geymd á öruggan hátt í eigu samfélaganna.

Share