Header Paragraph

Ljósi varpað á lúsmý og ávaxtaflugur

Image
Gildrur voru settar í ólíkt gróðurlendi. Hér standa Rafn Sigurðsson og Guðfinna Dís Sveinsdóttir við gildru (við fætur þeirra og því ósýnileg) sem sett var í lúpínubreiðu vestan Meðalfellsvatns í Kjós.

Tilvist agnarsmáu mýflugunnar lúsmýs hefur líklega ekki farið fram hjá neinum hér á landi seinustu ár. Þessar fíngerðu og illa sýnilegu flugur safnast margar saman á húð spendýra til að sjúga úr þeim blóð, eins og mörg hafa eflaust reynt á eigin skinni. „Lúsmý barst hingað fyrir um 10 árum að því talið er en margt er á huldu um líffræði þess,“ segir Arnar Pálsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Hann hefur í sumar ásamt samstarfsfólki rannsakað útbreiðslu og greint erfðaefni þessa ágenga gests og einnig ávaxtaflugna sem mörg þekkja eflaust úr ávaxtaskálum á heimilum fólks. Áherslan er m.a. að kortleggja dreifingu þessara tegunda á höfuðborgarsvæðinu og framvindu þeirra yfir sumarið.

Þrír BS-nemar í líffræði við Háskóla Íslands koma að verkefninu, þau Guðfinna Dís Sveinsdóttir, Nína Guðrún Baldursdóttir og Rafn Sigurðsson, en rannsóknin er að hluta styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna sem gefur háskólum, rannsóknastofnunum og fyrirtækjum tækifæri til að ráða námsmenn í grunn- og meistaranámi við háskóla til sumarvinnu við metnaðarfull og krefjandi rannsóknarverkefni. Auk þeirra hefur Andreas Gaehwiller Guðmundsson hjálpað til við verkefnið.

 

Image
Flugum var safnað með háfum og þær síðan settar í sýnaglös. Rafn Sigurðsson (nær) og Matthías Svavar Alfreðsson (fjær) safna flugum úr háfum við Meðalfellsvatn í Kjós.

Flugum var safnað með háfum og þær síðan settar í sýnaglös. Rafn Sigurðsson (nær) og Matthías Svavar Alfreðsson (fjær) safna flugum úr háfum við Meðalfellsvatn í Kjós.

 

Lítið vitað um lúsmýið

„Rannsóknin snýst um að kanna dreifingu tveggja gerða landnema hérlendis. Báðar eru flugur af gerð tvívængja, lúsmý og ávaxtaflugur,“ segir Arnar. Lúsmý þarf varla að kynna en að sögn Arnars hafa þær lítið verið rannsakaðar erlendis og er ekki vitað hvaðan þær komu, hvar lirfurnar þroskast, hvaða búsvæði þær kjósa og fleira í þeim dúr. Því er ljóst að lítið er vitað um hið landsfræga lúsmý. Þegar kemur að ávaxtaflugum nefnir Arnar að þær séu meinleysisgrey sem bera hvorki sjúkdóma né bíta fólk en þær nærast á rotnandi ávöxtum og koma iðulega með sendingum að utan. 

Arnar hefur rannsakað þróun lífvera og m.a. birt greinar um lífríki Íslands, aðallega bleikjur en einnig maura. Að hans sögn var kveikjan að þessari rannsókn áhugi hans á skordýrum og undrum lífríkisins. Við rannsóknina nýtir hópurinn sérstakar gildrur fyrir lúsmý til þess að kanna dreifingu þess og búsvæði. „Lúsmý er leitað í Kjósinni aðallega þar sem þess var fyrst vart þar fyrir alvöru. Við leggjum svokallaðar klakgildrur og notum háf í stilltu veðri. Einnig höfum við aflað sýna að kvöldlagi með aðstoð grillveislugesta,“ segir Arnar.

Texti

„Við viljum skilja betur dreifingu yfir landið og hvort um sé að ræða eina tegund, erfðafræðilega einsleita, eða undirstofna eða jafnvel fleiri en eina tegund,“ bætir Arnar við um lýsmýið. Hvað varðar ávaxtaflugurnar vonast Arnar að niðurstöðurnar gefi til kynna hvenær þær ná sér á flug og hvaða tegundir sé algengast að finna hérlendis. 

 

Mynd
Image
Arna Pálsson

Við rannsóknir á ávaxtaflugur beitir hópurinn örlítið öðruvísi aðferðum en þær eru veiddar í borginni með svokölluðum eggjastæðisgildrum á völdum stöðum. „Fylgst er með gildrum vikulega og svo tegundagreinum við sýni undir víðsjá og nú síðla sumars einnig með DNA-greiningum,“ bætir Arnar við. 

Image
Klakgildra

Klakgildrur voru notaðar til að reyna að finna uppeldisstöðvar lúsmýs. Gildran er lítill pýramídi úr áli með þéttu klæði, sem flugurnar safnast inn í ef þær klekjast undir rammanum. Hér er gildra í lúpínubreiðu nálægt Meðalfellsvatni í Kjós.

 

Niðurstöður rannsóknarinnar nýst til að sporna við fjölgun lúsmýs

Spurður um niðurstöður rannsóknarinnar vonast Arnar til að rannsóknarhópurinn finni klakstöðvar lúsmýsins, þ.e.a.s. í hvers konar landi eða vatni lirfurnar lifa og hvar ungflugur klekjast út. Á sama tíma vonast rannsakendur til að komast að því hvort flugan nær einum eða tveimur lífsferlum yfir sumarið. „Við viljum skilja betur dreifingu yfir landið og hvort um sé að ræða eina tegund, erfðafræðilega einsleita, eða undirstofna eða jafnvel fleiri en eina tegund,“ bætir Arnar við. Hvað varðar ávaxtaflugurnar vonast Arnar að niðurstöðurnar gefi til kynna hvenær þær ná sér á flug og hvaða tegundir sé algengast að finna hérlendis. 

Arnar segir að rannsóknin sé mikilvæg fyrir samfélagið að því leyti að hún varpi skýrara ljósi á landnám skordýra, bæði hinnar vinalegu og indælu ávaxtaflugu og þeirra sem teljast vágestir eins og lúsmýið. „Í tilfelli lúsmýs gæti þessi þekking hjálpað okkur að undirbúa okkur fyrir komandi sumur og ef klaksvæði reynast afmörkuð þá væri ef til vill hægt að sporna við fjölgun þeirra á einhvern hátt,“ segir Arnar.

Samstarfsmenn verkefnisins eru Matthías Svavar Alfreðsson, skordýrafræðingur við Náttúrufræðistofnun Íslands, og Gísli Már Gíslason, prófessor emeritus í líffræði við HÍ.

Texti

Klakgildrur voru notaðar til að reyna að finna uppeldisstöðvar lúsmýs. Nína Guðrún Baldursdóttir og Rafn Sigurðsson við gildru sem sett var upp á Neðra-Hálsi í Kjós.

Mynd
Image
Klakgildrur voru notaðar til að reyna að finna uppeldisstöðvar lúsmýs. Nína Guðrún Baldursdóttir og Rafn Sigurðsson við gildru sem sett var upp á Neðra-Hálsi í Kjós.