Header Paragraph

Breytingar á sjóbleikjustofnum mælikvarði á breytingar í stærra samhengi

Image
Bleikja

Sjóbleikja í kringum landið hefur verið að láta undan síga síðustu áratugi. „Gögn Veiðimálastofnunar frá 1990 sýna að veiddum sjóbleikjum hefur fækkað nær alls staðar á landinu,“ segir Arnar Pálsson, erfðafræðingur og prófessor í líffræði við Háskóla Íslands. 

Þessar breytingar á sjóbleikjustofnum Íslands voru kveikjan að rannsókn sem Arnar og samstarfsaðilar hans við Líffræðistofnun Háskóla Íslands og Ferskvatnssvið Hafrannsóknastofnunar hafa unnið að um nokkurt skeið. Hann segir að það sem vaki fyrir þeim sé að kanna hvort þessar breytingar hafi áhrif á erfðabreytileika í stofninum því ef stofninn fer minnkandi liggur beint við að spyrja hvort það sama eigi við um breytileikann. 

Vinna við rannsóknina hófst árið 2015 en það var ljóst frá upphafi að kanna þyrfti mynstrið í skyldleika stofna og tengsl þeirra á milli til þess að komast að niðurstöðu. „Fyrsta skrefið og það sem hefur tekið upp tíma okkar að stærstum hluta er kortlagning sjóbleikjustofna í kringum allt landið og athugun á skyldleika þeirra innbyrðis og erfðabreytileika í samanburði við vatnastofna sem eru einangraðir frá hafi,“ segir hann. 

Þáttur í rannsókninni er einnig að skoða hvað geti valdið þessum breytingum og hvort þær megi rekja til loftslagsbreytinga en sjóbleikjan er tegund sem þolir hita illa. „Það er vitað að laxfiskategundir eru miskuldasæknar eða hitaþolnar. Bleikjan er kuldaþolnust og er yfirleitt nyrst og í köldustu ánum og lækjunum en laxinn kann best við sig í heitara vatni, líklega vegna betra fæðuframboðs,“ útskýrir Arnar.

Texti

„Bleikjan er í sjálfu sér ekkert merkilegasti fiskur í heimi en vegna þess að hún er mjög útbreidd tegund getur hún virkað sem ákveðinn skynjari á breytingar í vistkerfum,“ segir Arnar Pálsson, erfðafræðingur og prófessor í líffræði við Háskóla Íslands.

Mynd
Image
Arna Pálsson

Bleikjan kjörið rannsóknarviðfangsefni

Að sögn Arnars sýna gögn Veiðimálastofnunar að urriðinn hefur verið í sókn á meðan bleikjunni hefur verið að hnigna. Þetta bendi til þess að hitastig hafi áhrif að einhverju leyti. Hann segir það sömuleiðis þekkt að bleikjuseiði þoli ekki of háan hita og að það kunni að vera að aukinn hiti hafi einnig alvarleg áhrif á fleiri tímapunktum í lífsferli tegundarinnar. 

Hér er mikið undir en stóru spurningunum hefur ekki enn verið svarað og ekki hægt að fullyrða neitt um orsakavalda. „Við vitum ekki hvað veldur þessum breytingum en við sjáum mynstur og það eru einhverjir orsakaþættir en það er erfitt að greina þá í sundur,“ segir Arnar. Vitað sé að raskanir á ám geti haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir laxa- og urriðastofna. Hins vegar hafi raskanir á ám, stíflum eða öðrum árveitum á Íslandi og áhrif þeirra á lífríki ekki verið markvisst kortlagðar líkt og annars staðar á Norðurlöndum. Samkvæmt Arnari er þetta ein af ástæðunum fyrir því að erfitt sé að átta sig á því hvort rekja megi breytingar á sjóbleikjustofnum til áhrifa hlýnunar, landnýtingar eða annarra þátta. 

Loftslagsmál eru í brennidepli í rannsóknum Arnars. „Stóra samhengið sem við erum að vinna í eru loftslagsmál en þau eru fjölþætt og hafa áhrif á mjög marga þætti í náttúrunni.“ Að sögn Arnars er bleikjan kjörið rannsóknaefni í þessu samhengi. „Bleikjan er í sjálfu sér ekkert merkilegasti fiskur í heimi en vegna þess að hún er mjög útbreidd tegund getur hún virkað sem eins konar nemi á breytingar í vistkerfum.“ 

Mikilvægt að deila upplýsingum um breytingar með samfélaginu

Ef svo fer að rannsóknin leiði í ljós miklar eða alvarlegar breytingar á vistkerfum áa, vatna eða hafsins telur Arnar mikilvægt að rannsakendur komi slíkum upplýsingum á framfæri við almenning. Hann bendir á að fólk eigi almennt erfitt með að skilja loftslagsvána og henda reiður á breytingum sem eigi sér stað yfir áratugi eða hundruð ára. Hraði loftslagsbreytinga sé mjög mikill á jarðfræðilegum tímaskala en hægur á mannlegum tímaskala. „Ef hrun í stofni er eitthvað sem fær fólk til að staldra við, átta sig betur á loftslagsbreytingum og breyta hegðan sinni, þá er það kannski jákvæð afleiðing náttúrulegs harmleiks,“ segir hann.

Rannsóknin sem slík varpar líka ljósi á þróunarsögu landnámsfiska á Íslandi en það eru 13 þúsund ár síðan eyjan var þakin jökli. Á tímabili sem nær yfir um það bil þrjú þúsund kynslóðir fiska hafa þeir numið ógrynni vatna og lækja en á aðeins örfáum áratugum verða breytingar sem stofninum stafar hætta af. Arnar segir að slíkur tímaskali þróunar og breytinga á vistkerfum geti vissulega hjálpað fólki til að ná utan um áhrif loftslagsbreytinga. 

Höfundur greinar: Gríma Irmudóttir, nemi í blaða- og fréttamennsku