
Getur hinn framandi minkur, sem sumum þykir vera grimmur, orðið vingjarnlegur? Svarið er já og kemur vafalítið mörgum á óvart. Þetta er alla vega niðurstaðan úr rannsókn sem var unnin í samstarfi Háskóla Íslands, Náttúrustofu Vesturlands, Oxford-háskóla og Stokkhólmsháskóla. Þetta vekur upp stórar spurningar um árásargirni almennt hjá spendýrum og þá þætti sem hafa áhrif á hana.
„Segja má að þessi rannsókn hafi átt sér dálítið óvenjulegan aðdraganda. Fyrir allmörgum árum stundaði ég rannsóknir á búsvæðanotkun og virkni villtra minka við Lónakot á Reykjanesi. Þar veiddi ég lifandi minka í lífgildrur og merkti með radíósenditækjum þannig að unnt væri að finna þá aftur og fylgjast með atferli þeirra. Meðan á gagnasöfnun stóð varð ég vitni að atferli sem stríddi gegn öllu því sem haldið hafði verið fram um minka. Ameríski minkurinn er jafnan álitinn vera mikill einfari og mjög árásargjarn gagnvart öðrum minkum og skyldum tegundum. Ég sá hins vegar fjölmörg atvik þar sem óskyldir minkasteggir áttu samskipti sem jafnvel mætti túlka sem vingjarnleg.“ Þetta segir Menja von Schmalensee, doktorsnemi við HÍ og sviðsstjóri hjá Náttúrustofu Vesturlands. Hún er hér að tala um rannsókn sem leiddi á dögunum til birtingar á vísindagrein í tímaritinu Animal Behaviour.
Menju langaði alltaf að kafa betur ofan í þessa óvæntu hegðun minkanna og grein hennar, sem hún vann ásamt Róberti A. Stefánssyni, forstöðumanni Náttúrstofunnar og Snæbirni Pálssyni, prófessor í líffræði við HÍ, varð afrakstur þeirrar vinnu. Snæbjörn er leiðbeinandi Menju í doktorsverkefni hennar. Aðrir höfundar eru David W. Macdonald frá Oxford-háskóla og Anders Angerbjörn frá Stokkhólmsháskóla.
Einrænt og árásargjarnt dýr verður vinalegt
Menja segir að til að skilja betur af hverju minkar draga stundum úr árásargirni gagnvart hver öðrum hafi hún og Róbert lagst yfir gagnasettin sín úr atferlisrannsóknum á radíómerktum minkum. Þær rannsóknir fóru fram á þremur ólíkum rannsóknasvæðum. Í Lónakoti og Sogi á Suðurlandi og sömuleiðis í Kolgrafafirði á Snæfellsnesi á árunum 1996 til 2007. Gögnin þeirra spanna upplýsingar um 66 mismunandi merkta einstaklinga ásamt skráningum um ómerkta minka sem sáust á rannsóknasvæðinu og atferli þeirra.
Þar sem minkar eru ekki félagslynd dýr heldur verja óðul þar sem þeir lifa einir út af fyrir sig voru langflestar athuganir þeirra Menju og Róberts í gagnasettunum á stökum dýrum. Þau fundu þó 50 tilfelli þar sem tveir eða fleiri óskyldir minkar sáust saman.
„Þótt 50 tilfelli hljómi ekki eins og há tala,“ segir Menja, „þá eru þetta einstök gögn fyrir þessa frekar ósýnilegu og einrænu tegund. Þessi tilfelli voru greind með tilliti til þess hvaða einstaklingar áttu í hlut og hvernig samskiptum þeirra var háttað. Í ljós kom með mjög skýrum hætti að vingjarnleg og hlutlaus samskipti áttu sér frekar stað á milli merktra einstaklinga sem voru staðbundnir á rannsóknasvæðunum og voru því nágrannar. Árásargirni átti sér hins vegar frekar stað ef annar eða báðir minkarnir voru ómerkt flökkudýr.“
Menja segir að þessi hegðun, þegar óðalsbundin tegund geri greinarmun á þekktum nágrönnum á aðliggjandi óðölum og óþekktum aðkomudýrum og aðlagi atferli sitt samkvæmt því, sé reyndar fyrirbrigði sem hafi verið lýst áður hjá þónokkrum tegundum, þótt því hafi aldrei áður verið lýst hjá minkum.
„Oft lýsir svona mismunun sér í sams konar minnkun í árásargirni gagnvart nágrönnum og við sáum hjá minknum, sem kalla mætti nágrannavæn hegðun, eða „dear enemy“ atferli á ensku. Hins vegar eru einnig til dæmi um öfuga tilhneigingu, þ.e. að dýr séu árásargjarnari gagnvart nágrönnum sínum en ókunnugum flökkudýrum. Það hefur verið kallað „nasty neighbour“ atferli, og má segja að sé nágrannafjandsamlegt,“ segir Menja.