
Sjóbleikja í kringum landið hefur verið að láta undan síga síðustu áratugi. „Gögn Veiðimálastofnunar frá 1990 sýna að veiddum sjóbleikjum hefur fækkað nær alls staðar á landinu,“ segir Arnar Pálsson, erfðafræðingur og prófessor í líffræði við Háskóla Íslands.
Þessar breytingar á sjóbleikjustofnum Íslands voru kveikjan að rannsókn sem Arnar og samstarfsaðilar hans við Líffræðistofnun Háskóla Íslands og Ferskvatnssvið Hafrannsóknastofnunar hafa unnið að um nokkurt skeið. Hann segir að það sem vaki fyrir þeim sé að kanna hvort þessar breytingar hafi áhrif á erfðabreytileika í stofninum því ef stofninn fer minnkandi liggur beint við að spyrja hvort það sama eigi við um breytileikann.
Vinna við rannsóknina hófst árið 2015 en það var ljóst frá upphafi að kanna þyrfti mynstrið í skyldleika stofna og tengsl þeirra á milli til þess að komast að niðurstöðu. „Fyrsta skrefið og það sem hefur tekið upp tíma okkar að stærstum hluta er kortlagning sjóbleikjustofna í kringum allt landið og athugun á skyldleika þeirra innbyrðis og erfðabreytileika í samanburði við vatnastofna sem eru einangraðir frá hafi,“ segir hann.
Þáttur í rannsókninni er einnig að skoða hvað geti valdið þessum breytingum og hvort þær megi rekja til loftslagsbreytinga en sjóbleikjan er tegund sem þolir hita illa. „Það er vitað að laxfiskategundir eru miskuldasæknar eða hitaþolnar. Bleikjan er kuldaþolnust og er yfirleitt nyrst og í köldustu ánum og lækjunum en laxinn kann best við sig í heitara vatni, líklega vegna betra fæðuframboðs,“ útskýrir Arnar.