Líf- og umhverfisvísindastofnun

Um stofnunina

Meginmarkmið Líf- og umhverfisvísindastofnunar Háskóla Íslands (LUVS) er að efla rannsóknir á sviði líf- og umhverfisvísinda og með því leggja sitt að mörkum til að skólinn nái langtímamarkmiðum um samkeppnishæfni gagnvart bestu rannsóknarháskólum heims. Þessar rannsóknir stuðla að uppbyggingu atvinnulífs, nýsköpun og verðmætasköpun í þágu íslensks samfélags í anda markmiða Háskólans.

Ný stofnun sem leiðir saman þessar fræðigreinar – líffræði, landfræði og ferðamálafræði – býður auk þess upp á nýja samstarfsmöguleika í rannsóknum og nýsköpun innan skólans og utan. Stofnunin mun bæta verulega aðstöðu starfsmanna og stuðla að bættri starfsemi. Brýnt er að efla grunnrannsóknir í öllum þessum greinum og skapa með því haldbæran þekkingargrunn fyrir nýtingu og verðmætasköpun.

Stjórn stofnunar

Fimm manna stjórn stýrir stofnuninni. Frá hausti  2017 hefur stjórnin verið skipuð Eddu Rut Hlín Waage og Agli Erlendssyni frá land- og ferðamálafræði og Zophoníasi Oddi Jónssyni og Ingibjörgu Svölu Jónsdóttur frá líffræði. Formaður stjórnar er Þóra Ellen Þórhallsdóttir.

 

Rannsóknir

Vettvangur rannsókna við stofnun og deild er skiptist í tvær rannnsóknarstofur:

  • Líffræðistofa - lífvísindarannsóknir á sviði sameindalíffræði, örverufræði, fiski- og sjávarlíffræði, vist- og þróunarfræði, grasafræði og skyldum greinum.
  • Land- og ferðamálafræðistofa - náttúrulandfræði, mannvistarlandfræði, ferðamálafræði og umhverfisfræði.

Hópar innan stofanna sinna rannsóknum sem oftast falla undir eitt eða fleiri fræðasvið. Einnig er rannsóknarfólk LUVS í fjölþættu samstarfi, bæði við erlenda og innlenda aðila.

Rannsóknir LUVS eru kynntar með fyrirlestrum, ráðstefnum og útgáfu í bókum í ritrýndum fagtímaritum erlendis og á Íslandi (sjá Útgefið efni).

Litun á augnbotni ávaxtaflugu © Sigríður R. Franzdóttir

Blálilja / © Kesara A. Jónsson

Litun á beinum og brjóski í kola / © Líf og umhverfisvísindastofnun

Gras í Þjórsárdal / © Arnar Pálsson

LUVS stendur í samvinnu við Líf- og umhverfisvísindadeild fyrir fyrirlestrum um viðfangsefni á sínum fagsviðum. Fyrirlestrarnir eru auglýstir í Viðburðaskrá Háskóla Íslands og eru opnir gestum og gangandi. Fyrirlestrarnir eru af ýmsum toga:

  • Meistara og doktorsvarnir nemenda við deildina
  • Gestafyrirlestrar, erindi gestkomandi vísindamanna eða heiðursprófessora
  • Föstudagsfyrirlestrar Líffræðistofu (áður Líffræðistofnunar)
  • Ráðstefnur eða málþing af fræðilegum toga

Hlutverk

Samkvæmt Reglum Háskólans er hlutverk stofnunarinnar:

a) að efla rannsóknir á fræðasviðum sínum við Háskóla Íslands,
b) að samhæfa rannsóknir og efla tengsl rannsókna og kennslu á fræðasviðum sínum við Háskóla Íslands,
c) að styðja kennslu og þjálfun í vísindalegum vinnubrögðum og veita nemendum í framhaldsnámi aðstöðu og búnað til rannsóknarstarfa eftir því sem kostur er,
d) að stuðla að samstarfi við innlenda og erlenda rannsóknaraðila á fræðasviðum sínum og sterkum tengslum við atvinnu- og þjóðlíf,
e) að sinna þjónustuverkefnum á fræðasviðum sínum eftir því sem unnt er og við á,
f) að kynna niðurstöður rannsókna á fræðasviðum sínum,
g) að veita upplýsingar og ráðgjöf varðandi málefni sem snerta fræðasvið stofnunarinnar,
h) að gangast fyrir námskeiðum, fyrirlestrum og ráðstefnum sem geta stuðlað að aukinni þekkingu á fræðasviðum stofnunarinnar, til heilla fyrir þjóðina og vísindasamfélagið.

Saga

LUVS var stofnuð á Degi íslenskrar náttúru, 16. september 2011 sem rannsóknarvettvangur starfsmanna Líf- og umhverfisvísindadeildar H.Í., en það eru kennarar í líffræði, landfræði og ferðamálafræði auk verkefnaráðinna sérfræðinga og framhaldsnema. Fram að því höfðu kennarar í land- og ferðamálafræði verið utan stofnana en kennarar í líffræði höfðu aðstöðu við Líffræðistofnun.

Forveri LUVS var Líffræðistofnun Háskólans sem stofnuð var fyrir um þremur áratugum. Starfsfólk Líffræðistofnunar sinnti rannsóknum á líffræði, bæði grunnrannsóknum og þjónusturannsóknum. Stofnunin gaf út fjölrit og skýrslur, auk þess að hýsa rannsóknaraðstöðu.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is