Líf- og umhverfisvísindastofnun

Séríslenskur rostungsstofn hvarf við landnám

Á öldum áður lifði hér á landi sérstakur íslenskur rostungastofn. Stofninn varð útdauður um landnám fyrir um 1100 árum. Nú hefur alþjóðlegur hópur vísindamanna leyst ráðgátuna um rostungana. Niðurstöður bendi til að rostungastofninn og útrýming hans séu meðal fyrstu hugsanlegra dæma um ofnýtingu á sjávarlífverum.

Veiðar á dýrunum og verslun með afurðir þeirra; skögultennur, húðir, kjöt og lýsi, eru taldir vera helstu orsakavaldar að útrýmingu rostunganna, segir í tilkynningu frá aðstandendum rannsóknarinnar.

Rostungarnir eftirsóttir af víkingum

Rostungarnir voru mjög eftirsóttir af víkingum á þessum tíma. Húð dýranna var meðal annars notuð í klæði og svarðreipi, sterk reipi sem voru nauðsynleg til að standa undir stórum seglum og bátaflota víkinganna, sagði Hilmar J. Malmquist, líffræðingur og forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands í samtali við fréttastofu. 

Þá var lýsið eftirsótt og bæði nýtt í að vatnsþétta skipin og sem vörn gegn skeldýrum sem boruðu sig inn í bátanna og eyðilögðu þá. 

Skögultennur rostunganna voru kallaðar fílabein Norðursins um tíma og þóttu miklar gersemar. Listfengir menn, konur og karlar skáru út falleg mynstur í tennurnar. „Konungum voru færðar skögultennur að gjöf og líka heilir hausarnir. Þetta þóttu það merkilegir gripir og þykja svo sem enn í dag“, sagði hann. 

Hópur alþjóðlegra vísindamanna birtu niðurstöður rannsókna sinna á séríslensku rostungunum í morgun í tímaritinu Molecular Biology and Evolution. Náttúruminjastofnun Íslands átti frumkvæði að rannsókninni.  

Íslenskir, danskir og hollenskir vísindamenn nýttu erfðarannsóknir og aldursgreiningar á beinaleifum rostunga við rannsóknir sínar. Beinaleifar fundust aðallega á Suðvesturlandi, Vesturlandi og Vestfjörðum.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is