Líf- og umhverfisvísindastofnun

Kláraði doktorsritgerð með gamla laginu

Nútildags er hefðin sú að nemendur vinna að doktorsverkefnum undir leiðsögn kennara og sérfræðinga og útskrifast frá deildum viðurkenndra háskóla. Í gamla daga var þessu öðruvísi farið. Fræðimenn og vísindamenn unnu að rannsóknum, oft einir á báti, og lögðu fram niðurstöður sínar, bækur, greinar og annað efni. Háskólar mátu ritgerðirnar og veittu mönnum doktorsnafnbót ef þær voru taldar nægilegar að burðum og fræðilega traustar.

Á síðasta áratug hefur doktorsnám vaxið mikið við Háskóla Íslands. Um 50-70 doktorar útskrifast á ári, næstum allir með nýja laginu eftir að hafa klárað doktorsverkefni undir leiðsögn kennara eða leiðbeinanda. Hin leiðin er miklu sjaldgæfari.

Árni Kristmundsson vann í kjölfar stúdentsprófs við bílaviðgerðir og rak fyrirtæki í þeim geira ásamt bróður sínum um 9 ára skeið. Þrítugur að aldri hóf Árni nám í líffræði við Háskóla Íslands og útskrifaðist með B.Sc. próf þaðan árið 1999 og lauk svo M.Sc. prófi frá sama skóla árið 2003. Síðan árið 1999 hefur Árni starfað við Rannsóknadeild fisksjúkdóma á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, þar af sem deildarstjóri síðan 2009.

Árni hefur stundað margvíslegar rannsóknir á sníkjudýrum og áhrifum þeirra. Hann ákvað að taka saman rannsóknir sínar um sníkjudýr í hörpudiski og rita doktorsritgerð um efnið. Hann ritaði fræðilegan inngang og raðaði upp fimm rannsóknargreinum sem fjalla um greiningu á Apicomplexa einfruma sníkjudýrum sem sýkja bæði hryggdýr og hryggleysingja. Meinvirkni þessa hóps sníkjudýra er mismikil, eftir tegundum og/eða hýslum þeirra. Rannsóknir Árna benda til að sníkjudýrin gætu hafa tengst hruni í stofni hörpudisks á Breiðafirði og jafnvel í syðri höfum einnig. Sníkjudýr eins og þau sem Árni rannsakar eru torskilin og marg á huldu með líffræði og vistfræði þeirra, en geta haft mikil áhrif á lífkerfi sjávar og þar með nytjastofna.

Ritgerð Árna var metin af sérstakri dómnefnd og þann 7. desember síðastliðin varði hann ritgerðina og rannsóknir sínar fyrir fullum sal fólks. Þótt Árni Kristmundsson hafið orðið doktor með gamla laginu, eru niðurstöður hans nútímalegar og forvitnilegar.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is