Líf- og umhverfisvísindastofnun

Ákall til þingmanna: Kröftug fjárfesting í vísindarannsóknum er forsenda framþróunar

 

Ákall til þingmanna:

Kröftug fjárfesting í vísindarannsóknum er forsenda framþróunar

Sú fregn hefur borist að til standi að lækka framlag í Rannsóknasjóð um 146.6 milljónir í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2019. Í stefnu Vísinda- og tækniráðs 2017-2019 segir Leiðarljós í stefnu Vísinda- og tækniráðs er að fjárfesting í rannsóknum og þróun nái 3% af vergri landsframleiðslu fyrir árið 2024.Til þess þarf fjörutíu prósent aukningu miðað við árið 2017, eða tæpa fjóra milljarða króna á ári. Framlag ríkisins til samkeppnissjóða ætti þessu samkvæmt að margfaldast. Því er með öllu óskiljanlegt að nú sé lagt til að minnka framlag til Rannsóknasjóðs Vísinda- og tækniráðs, sem er hornsteinn grunnrannsókna á Íslandi.

Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2019 segir við lið 7.1: Heildarfjárheimild til málaflokksins fyrir árið 2019 er áætluð 8.350,2 m.kr. og hækkar um 650,2 m.kr. frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreyting um en þær nema 51,2 m.kr. Helsta breyting á fjárheimildum málaflokksins er hækkun á framlagi til rammaáætlana ESB um menntun, rannsóknir og tækniþróun, um 807 m.kr. milli ára. Við fögnum aukinni fjárfestingu í sameiginlegum áætlunum ESB, sem íslenskir vísindamenn sækja einnig í en aukningin undir þessum lið skýrist líklega af samningsbundnu framlagi beintengdu vergri þjóðarframleiðslu. Við höfum hins vegar verulegar áhyggjur af almennum mótvægisaðgerðum til að draga úr útgjaldavexti upp á 181,6 millj. kr. Spurst hefur út að niðurskurðurinn muni allur bitna á Rannsóknasjóði Vísinda- og tækniráðs, sem styrkir grunnrannsóknir á öllum fræðasviðum allt frá sjúkdómum, eldgosum og annarri náttúruvá, Íslandssögu að gervigreind og máltækni. Við teljum rangt að almenn aðhaldskrafa bitni eingöngu á innlendum grunnrannsóknum. Sérstaklega í ljósi þess að aukning í sameiginlegar áætlanir ESB spanna mun fleiri flokka en grunnrannsóknir. Rannsóknasjóður styrkir innlendar grunnrannsóknir, bæða á viðfangsefnum með alþjóðlega og íslenska skírskotun.

Vísindarannsóknir efla hagkerfið og samfélagið

Vísindarannsóknir sem styrktar eru af samkeppnissjóðum eru undirstaða framþróunar í nútímasamfélagi og mynda kjölfestu sem þekkingarleit og nýsköpun byggist á. Þessu til staðfestingar má nefna að nokkur af framsæknustu nýsköpunarfyrirtækjum landsins, eins og t.d. Oculis, Kerecis, Hafmynd, Marorka og Stjörnuoddi, hafa verið styrkt af samkeppnissjóðum Vísinda- og tækniráðs. Til að áfram verði til arðvænleg fyrirtæki á Íslandi er nauðsynlegt að fjárfestingar til vísindarannsókna verði auknar. Öflugar vísindarannsóknir byggja einnig undir upplýst samfélag með þjálfun doktorsnema og sérfræðinga og þeirri þekkingu sem aflast. Þannig byggja rannsóknir upp virðingu fyrir staðreyndum, gagnrýnni hugsun, opnum skoðanaskiptum og heiðarlegri umræðu. Fjárfestingar í vísindarannsóknum skila því bæði beinum arði til þjóðarinnar og efla samfélagið um land allt. Því hafa flestar vestrænar þjóðir lagt mikið upp úr eflingu vísindarannsókna og eflingu samkeppnissjóða, ekki síst á krepputímum.

Framlög til samkeppnissjóða á Íslandi eru þegar langt á eftir viðmiðunarlöndum: Snúum þeirri þróun við

Sá niðurskurður sem nú er stefnt að samkvæmt fjárlögum sem liggja fyrir Alþingi gengur þvert á stefnu Vísinda- og tækniráðs. Hún gerir ráð fyrir auknu framlagi til rannsókna. Árið 2016 var fjárfesting Íslands í rannsóknum einungis 2,08% af vergri þjóðarframleiðslu en OECD meðaltalið var 2,36%. Sama ár voru Danmörk, Svíþjóð og Finnland á bilinu 2,75-3,76%. Til þess að takast megi að ná markmiðum Vísinda- og tækniráðs þarf að stórefla samkeppnissjóðina á Íslandi og aukna fjármögnun rannsóknaháskólanna á næstu árum. Með breytingatillögum fjárlaganefndar á fjárlögum næsta árs má hins vegar áætla að úthlutanir úr Rannsóknasjóði lækki um 21% og að lágmarki hverfi 25 störf ungra vísindamanna. Lækkunin mun hafa áhrif á allar helstu rannsóknastofnanir landsins, háskóla og rannsóknasetur um land allt. Minni rannsóknarstofnanir, margar hverjar úti á landi, eru sérstaklega berskjaldaðar fyrir lækkun á fjárveitingu Rannsóknarsjóðs því hver styrkur sem fæst getur skipt sköpun fyrir starfsemi þeirra til nokkura ára.

Björgum störfum ungra vísindamanna

Sú nýliðun og mannauður sem verður til við vísindarannsóknir skiptir sköpum þegar viðhalda skal þekkingar- og nýsköpun. Þegar skorið er niður til vísindastarfa tapast menntunartækifæri háskólanema og störf ungs vísindafólks sem hverfur á önnur mið. Dýrmæt þekking tapast úr samfélaginu. Ef fyrirhuguðum niðurskurði á fjárveitingum til Rannsóknasjóðs Vísinda- og tækniráðs verður haldið til streitu er ljóst að strax á næsta ári munu að minnsta kosti 25 störf ungra vísindamanna tapast. Meistara- og doktorsnemar auk nýdoktora vinna um land allt, sum hver að verkefnum með sérstaka íslenska skírskotun. Atgervisflóttinn úr íslensku þekkingarumhverfi er raunverulegt vandamál, og ljóst að hann mun aukast ef ekki verður þegar brugðist við.

Sterkir íslenskir samkeppnissjóðir eru forsenda árangurs erlendis

Samkeppni um styrki úr erlendum rannsóknarsjóðum er gríðarlega hörð. Lykilforsenda fyrir erlendri styrkveitingu er að verkefnið hafi áður fengið styrk úr íslenskum sjóðum. Íslensku samkeppnissjóðirnir eru því forsenda þess að íslenskir vísindamenn geti hafið rannsóknir og skapað sér sess í alþjóðlegu vísindasamfélagi. Til þess að íslenskir vísindamenn fái tækifæri og svigrúm til að byggja upp rannsóknir alþjóðlega samkeppnishæfar rannsóknir þarf öfluga innlenda fjárfestingu.

Framlag til háskóla eflir ekki grunnrannsóknir á sama hátt og samkeppnissjóðir

Rannsóknaumhverfið á Íslandi er þess eðlis að styrkir úr Rannsóknasjóði er eina haldreipi flestra vísindamanna til að stunda rannsóknir. Því var haldið fram að lækkun til sjóða Vísinda- og tækniráðs væri réttlætanleg vegna fyrirhugaðrar 4% aukningar (skv. krónutölu) á fjárframlögum til háskóla landsins. Þetta er mikill misskilningur.

  • Í fyrsta lagi stendur 4% hækkun einungis undir launaskriði starfsfólks háskólanna.
  • Í öðru lagi er launakostnaður um 80% af kostnaði háskólanna, og lítið fé aukreitis fyrir rannsóknarsjóði þeirra. Til dæmis borgar meðalstyrkur frá Rannsóknasjóði HÍ laun grunnnema í 3 mánuði. Á meðan dugir styrkur úr Rannsóknasjóði Vísinda- og Tækniráðs t.a.m. fyrir launum tveggja doktorsnema í þrjú ár.
  • Í þriðja lagi, leggja háskólar lítið annað meðlag með rannsóknum og því er ekki hægt að rökstyðja lækkuð framlög í samkeppnissjóði með því að framlög til háskólanna hafi hækkað.
  • Í fjórða lagi, hefur hluta af auknu fé til háskólanna verið beint í stoðþjónustu, eins og t.d. Einkaleyfastofu, en ef styrkir til grunnrannsókna eru skornir skapast færri nýjungar til að sækja um einkaleyfi á.


Við, undirrituð, hvetjum því þingmenn eindregið til að falla frá fyrirætluðum niðurskurði til Rannsóknasjóðs Vísinda- og tækniráðs.

Ísland, 5. desember 2018.

Andri Steinþór Björnsson, prófessor við Sálfræðideild HÍ.

Anna Margrét Halldórsdóttir, sérfræðilæknir Landspítala.

Arnar Pálsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ.

Berglind Ósk Einarsdóttir, nýdoktor við HÍ.

Bjarni K. Kristjánsson, prófessor við Háskólann á Hólum.

Eiríkur Steingrímsson, prófessor við Læknadeild HÍ.

Erna Magnúsdóttir, dósent við Læknadeild HÍ.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir, aðjúnkt í heimspeki við HÍ.

Eyjólfur Ingi Ásgeirsson, dósent í verkfræði við HR.

Freyja Imsland, nýdoktor við Læknadeild HÍ.

Guðrún Ingólfsdóttir , vísindamaður HÍ.

Guðrún Valdimarsdóttir, dósent við Læknadeild HÍ.

Henning Úlfarsson, dósent Háskólanum í Reykjavík.

Hreggviður Norðdahl, fræðimaður við Jarðfræðistofnun HÍ.

Kristján Leósson, forstöðumaður Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

Leó A. Guðmundsson, sérfræðingur við Hafrannsóknarstofnun.

Margrét Eggertsdóttir, rannsóknaprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Margrét Helga Ögmundsdóttir, aðjúnkt við Læknadeild HÍ.

Magnús M. Kristjánsson, prófessor við Raunvísindadeild HÍ.

Óttar Rolfsson, professor við Læknadeild HÍ.

Páll Melsted, prófessor við Iðnaðar-, vélaverkfræði og tölvunarfræðideild HÍ.

Sif Ríkharðsdóttir, prófessor í bókmenntafræði við HÍ.

Sigríður K. Böðvarsdóttir, forstöðumaður Lífvísindaseturs HÍ.

Sigríður R. Franzdóttir, dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ.

Snorri Þ. Ingvarsson, prófessor við Raunvísindadeild HÍ.

Stefán Þ. Sigurðsson, dósent við Læknadeild HÍ.

Stefán Óli Steingrímsson, prófessor við Háskólann á Hólum.

Svanhildur Óskarsdóttir, rannsóknardósent við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum

fræðum.

Ýmir Vigfússon, dósent við Háskólann í Reykjavík / Emory University.

Zophonías O. Jónsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ.

Þorkell Guðjónsson, sérfræðingur við Læknadeild HÍ.

Þórarinn Guðjónsson, prófessor við Læknadeild HÍ.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is