Líf- og umhverfisvísindastofnun

Rannsóknir á dvergbleikjum við Herðubreið

Hversu fyrirsjáanleg er þróun? Ef þróun einhvers hóps væri endurtekin, myndi hún verða eins eða mjög ólík? Við getum ekki svarað spurningunni beint, t.d. er ómögulegt að prófa hvort að maðurinn myndi þróast aftur ef við gætum spólað 5 milljón ár aftur í tímann og byrjað með sameiginlegan forföður manns og simpansa.

En hægt er að skoða aðskilda stofna innan sömu tegundar og athuga hvort að þeir hafi þróast í sömu átt.

Það rannsaka Sigurður Snorrason og félagar við Líffræðistofu HÍ, ásamt vinum sínum á Hólum. Þau eru að kanna hvort að dvergbleikjur sem finnst í mörgum lindum á gosbelti íslands hafi þróast á sama hátt eða mismunandi.

Rannsóknin felur í sér samanburð á útliti, vistfræði og erfðamengi ólíkra stofna. Dvergbleikjurnar eru agnarsmáar, þær verða kynþroska 10-15 sm langar og eru handónýtar til átu. Það er líka bannað að veiða þær, amk innan þjóðgarða.

Til að ná í sýni fór Sigurður og félagar upp á hálendið síðastliðið sumar. Við Herðbreið hittu þeir fyrir Gísla Einarsson og landagengið hans. Viðtal við Sigurð og myndir af fiskunum og sýnatökunni má sjá í Landanum sem sýndur var fyrir rúmri viku. Myndskeiðið hefst á 11 mínútu, og er vel þess virði að skoða.

Myndin sem fylgir pistlinum er af Sigurði og Zophoníasi samstarfsmanni hans við Hvannalindir 2016.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is