Líf- og umhverfisvísindastofnun

Doktorsverkefni - stofnerfðafræði og tegundamyndun í bleikju

Doktorsnemi í líffræði við Líf- og umhverfisvísindastofnun
Verkfræði- og náttúruvísindasvið
Háskóli Íslands

Staða doktorsnema við Líf- og umhverfisvísindastofnun er laus til umsóknar við verkefnið: Þróun æxlunartálma milli samsvæða bleikjuafbrigða.

Hvernig er svipfarslegu samræmi (phenotypic integrity) viðhaldið þrátt fyrir genaflæði? Hvaða áhrif hefur kynblöndun milli afbrigða á þroskun og hæfni? Hvaða sameindafræðilega gangvirki liggur að baki skertri samvirkni í þroskun kynblendinga? Þessum og tengdum spurningum verður reynt að svara af hópi rannsakenda og þeim sem valinn verður i stöðu doktorsnema.

Verkefnið
Bleikjan í Þingvallavatni er vel til þess fallin að glíma við þessar spurningar. Vatnið myndaðist við lok síðasta ísaldarskeiðs fyrir um 10-11 þúsund árum en þrátt fyrir lágan aldur vatnsins má nú finna í því fjögur bleikjuafbrigði. Afbrigðin eru mismunandi hvað snertir lífssöguþætti, atferli og ýmsa útlitsþætti. Þróun afbrigðanna er talin tengjast aðlögun að mismunandi vistum svo og þróun æxlunartálma milli þeirra. Rannsóknin mun beinast að tveimur afbrigðanna, murtu, sem er svifæta, og dvergbleikju, sem lifir á grunnbotninum. Hrygningarstofnar beggja afbrigða eru stórir og hrygningin skarast bæði í tíma og rúmi þannig að möguleikar á víxlfrjóvgunum ættu að vera verulegir. Þrátt fyrir þetta gefa stofnerfðafræðilegar rannsóknir til kynna að stofnarnir æxlist ekki saman að neinu marki. Rannsókninni er ætlað að kanna að hve miklu leyti þetta stafar af sterku vali gegn kynblendingum og/eða mismunandi tímasetningu hrygningar innan sólarhrings, og/eða mismunandi mökunarhegðun. Doktorsnemanum er ætlað að (i) mæla hæfni kynblendinga  á mismunandi fósturskeiðum og fyrstu stigum eftir klak, (ii) bera saman tjáningu gena meðan á fósturþroska stendur í kynblendingum og hreinræktuðum afkvæmum afbrigðanna, og (iii) rannsaka æxlunarhegðun afbrigðanna í vatninu og í tilraunabúrum. 

Umsækjendur þurfa að hafa lokið MS gráðu í líffræði eða tengdum greinum. Þeir sem lokið hafa a.m.k. 60 ECTS rannsóknarverkefni í framhaldsnámi hafa forgang. Reynsla af köfun kemur sér vel.

Við leitum að ábyrgðarfullum nemanda sem er metnaðarfullur, og með góðan fræðilegan bakgrunn í þróunar- og þroskunarfræði og áhuga á atferlisfræði. Vinnan felur í sér skipulagningu og framkvæmd sýnatöku og gagnasöfnunar á vettvangi, uppsetning tilrauna í vinnustofu, öflun og úrvinnsla erfðafræðilegra gagna úr öflugum raðgreinum, og greiningu og túlkun gagna. Staðan er við Háskóla Íslands og vinnan mun fara fram þar. Sérfræðingar við Háskólann í Aberdeen, Skotlandi og við Háskólann á Hólum munu einnig taka þátt í verkefninu.

Umsóknarfrestur er til og með 6. júní 2017. Æskilegt er að doktorsneminn geti hafið störf 1. ágúst 2017. Náminu skal vera lokið innan fjögurra ára. Nemandinn má sinna kennslu í mesta lagi tvö misseri. Sá sem verður valinn þarf að senda formlega umsókn um doktorsnám á heimasíðu Háskóla Íslands.
Sótt er um starfið hér: www.hi.is/laus_storf

Umsókn skal innihalda i) umsóknarbréf (hámark tvær bls.) þar sem kemur fram áhugi á verkefninu, ástæða fyrir doktorsnámi, væntingar til doktorsnámsins og hvað þau hafa fram að færa til verkefnisins ii) ferilskrá (starfsreynsla og önnur reynsla, ritskrá ef einhver er), iii) afrit af prófskírteinum (BS og MS) iv) námskeið tekin bæði í grunn- og framhaldsnámi. v) afrit af lokaverkefni vi)  nöfn og upplýsingar um tvo meðmælendur og hvernig má hafa samband við þá.

Nemandinn mun verða hluti af rannsóknarhópi við Líf- og umhverfisvísindastofnun og undir leiðbeiningu Sigurðar S. Snorrasonar, Arnars Pálssonar og Zophoníasar O. Jónssonar. Rannsóknarhópurinn samanstendur af nokkrum doktorsnemum og emiritusum og er í samstarfi við rannsóknarhópa á Íslandi, Danmörku, Skotlandi og Kanada. Þekking þessara samstarfsaðila spannar vítt svið, m.a. stofnvistfræði, erfðafræði, sameindalíffræði og lífupplýsingafræði. Nemandinn hefur aðgang nauðsynlegum búnaði og tækjum á stofnuninni eða á samstarfsstofnunum.

Frekari upplýsingar veitir Kalina H. Kaplarova á ensku á (kalina@hi.is) og Sigurður S. Snorrason (sigsnor@hi.is). Frekari upplýsingar um rannsóknarhópinn má finna hér: http://luvs.hi.is/en/arctic-charr-development-and-genomics

Öllum umsóknum verður svarað og umsækjendum tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin.

Við ráðningu í störf við Háskóla Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun skólans.

Á Verkfræði- og náttúruvísindasviði starfa 360 manns við rannsóknir og kennslu á sviði verkfræði og náttúruvísinda. Starfsumhverfið er alþjóðlegt enda eykst sífellt hlutfall erlendra starfsmanna og nemenda við sviðið, en fjórðungur bæði starfsmanna og framhaldsnema eru erlendir. Nemendur Verkfræði- og náttúruvísindasviðs eru um 2300 talsins í sex deildum. Þar af eru 350 í meistaranámi og 150 í doktorsnámi. Rannsóknarstofnanir sviðsins eru Jarðvísindastofnun og Eðlisvísindastofnun sem tilheyra báðar Raunvísindastofnun, Líf- og umhverfisvísindastofnun, Verkfræðistofnun og Stofnun Sæmundar fróða sem er þverfræðileg stofnun og heyrir undir öll fræðasvið háskólans.

Háskóli Íslands er stærsta kennslu-, rannsókna- og vísindastofnun Íslands og er í hópi 250 bestu háskóla heims samkvæmt nýjum matslista Times Higher Education.

 

Open until 15. July 2017. Ph.D. position Evolution of reproductive barriers in sympatric Arctic charr morphs

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is