Líf- og umhverfisvísindastofnun

Gervilirfur varpa ljósi á mynstur afráns á heimsvísu

Lirfur skordýra sem lifa nálægt miðbaugi eru átta sinnum líklegri til þess að vera étnar en þær sem lifa nálægt pólunum. Þetta sýnir umfangsmikil rannsókn alþjóðlegs hóps vistfræðinga sem sagt er frá í nýjasta hefti hins virta vísindatímarits Science sem kom út í dag, föstudaginn 19. maí. Rannsóknin varpar nýju ljósi á samspil ólíkra tegunda á mismunandi breiddargráðum í heiminum og sýnir að ákveðið mynstur er í afráni dýra á heimsvísu. Meðal aðstandenda rannsóknarinnar er Isabel Barrio, rannsóknasérfræðingur við Líf- og umhverfisvísindastofnun Háskóla Íslands.
 
Það er vel þekkt að tegundafjölbreytileiki dýra er meiri í hitabeltinu en nærri pólunum tveimur. Erfiðara hefur reynst að svara því hvort samskipti tegundanna aukist eftir því sem nær dregur miðbaug? Svo virðist vera samkvæmt rannsókninni sem birt er í Science.
 
Fjörutíu manna hópur vísindamanna frá 21 landi kom að rannsókninni og beittu þeir sömu einföldu aðferðunum á hverjum stað þar sem mælingar fóru fram. Vísindamenn við Helsinki-háskóla hönnuðu sérstakar gervilirfur úr grænum mótunarleir fyrir börn (plasticine), sem líkjast lirfu fetarafiðrildisins, og sendu þúsundir þeirra til þátttakenda í rannsókninni víða um heim. Þeir límdu lirfurnar við plöntur og fylgdust svo með því hvernig afræningjar eins og fuglar, maurar og aðrar tegundir gerðu árásir á lirfurnar. Gervilirfunum var svo safnað saman aftur og þær sendar til Helsinki þar sem bitförin á þeim voru tegundagreind. Það reyndist auðvelt því afar mikill munur er á biti maura og goggi fugla svo dæmi sé tekið.
 
Gervilirfunum var komið fyrir á 31 stað á 11.600 km löngu belti sem náði frá norðurheimskautsbaug til suðurhluta Ástralíu. Með því að beita sömu aðferðunum á hverjum stað fengust samanburðarhæfar niðurstöður sem ná yfir afar ólík loftslagsbelti og varpa ljósi á samskipti ólíkra tegunda á mismunandi breiddargráðum í heiminum.
 
Lirfur við miðbaug átta sinnum líklegri til að vera étnar en lirfur nær pólunum
Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að lirfur við miðbaug voru átta sinnum líklegri til þess að vera étnar en þær sem voru nyrst og syðst á hnettinum. Jafnframt reyndust sams konar líkur á afráni á lirfum á breiddargráðum á suður- og norðurhveli sem voru jafnlangt frá miðbaug. Enn fremur sýndu niðurstöðurnar að eftir því sem lirfurnar voru hærra yfir sjávarmáli, þeim mun minni líkur voru á því að önnur dýr reyndu að leggja sér þær til munns. Þetta rennir stoðum undir það, að mati vísindahópsins, að sameiginlegir þættir stjórni samskiptum ólíkra tegunda á heimsvísu.
 
Margir telja að hryggdýr, eins og fuglar og spendýr, séu mikilvægustu rándýrin í hitabeltinu en samkvæmt niðurstöðunum skýrist aukin hætta á áfráni á lirfum, eftir því sem nær dregur miðbaug, af ágangi liðdýra eins og maura. Niðurstöðurnar undirstrika einnig hve mikilvægu hlutverki maurar gegna við að halda liðdýrum sem nærast á plöntum, eins og skordýralirfum, í skefjum og tryggja þannig að gróður nái að dafna á mikilvægum svæðum eins og hitabeltinu. 
 
Isabel Barrio, vistfræðingur og rannsóknasérfræðingur við Líf- og umhverfisvísindastofnun Háskóla Íslands, leggur áherslu á að rannsóknir sem þessar sé aðeins hægt að gera í samhentu átaki vísindamanna víða um heim. „Þetta er það dásamlega við svokallaðar dreifðar tilraunir. Vistfræðingar fást jafnan við spurningar sem snerta mynstur og ferla í náttúrunni sem eru mun stærri en svo að einn vísindamaður eða hópur ráði við þær. Með því að hanna tilraunir sem þessar, þar sem vinnunni er deilt á stóran hóp vísindamanna um allan heim, getum við öðlast gleggri sýn á stóru myndina í vistkerfunum,“ segir Isabel. 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is