Líf- og umhverfisvísindastofnun

Doktorsverkefni - stofnerfðafræði íslenska arnarins

Doktorsnemi í líffræði - Háskóli Íslands, Líf- og umhverfisvísindastofnun - Reykjavík - 201704/814

Doktorsnemi í líffræði við Líf- og umhverfisvísindastofnun
Verkfræði- og náttúruvísindasvið
Háskóli Íslands

Staða doktorsnema við Líf- og umhverfisvísindastofnun er laus til umsóknar við verkefnið: Erfðabreytileiki og frjósemi hafarna á Íslandi. Staðan er styrkt af Rannsóknarsjóði Háskóla Íslands til þriggja ára (http://sjodir.hi.is/node/352). Leiðbeinandi er Snæbjörn Pálsson prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild. Verkefnið er unnið í samvinnu við Kristinn Hauk Skarphéðinsson hjá Náttúrufræðistofnun, Íslenska Erfðagreiningu og Tom Gilbert, prófessor við Háskólann í Kaupmannahöfn.

Haförninn (Haliaeetus albicilla) á Íslandi fækkaði á síðari hluta nítjándu aldar frá um 150 pörum í 20 pör árið 1915 þegar stofninn var friðaður. Þrátt fyrir friðun stækkaði stofninn ekki, einkum vegna eitrana fyrir refi og það var ekki fyrr en um 1970 sem stofninn fór að stækka. Vaxtarhraðinn er hægur og frjósemi arnanna er minni en hjá haförnum á norðurlöndum. Markmið verkefnisins er að greina áhrif lítillar stofnstærðar og skyldleikaæxlunar á breytileika erfðamengja og hæfni einstaklinga. Til að greina þessi áhrif verða greind einstök sýna- og gagnasett og erfðamengi íslenskra hafarna borin saman við erfðamengi arna frá meginlandi Evrópu. Niðurstöður rannsóknarinnar hafa þýðingu bæði fyrir þróunarfræði og náttúruverndarlíffræði og verndun hafarnarins á Íslandi.

Umsækjendur þurfa að hafa lokið meistaragráðu í líffræði eða skyldum greinum. Reynsla af stofnerfðafræði og lífupplýsingafræði er æskileg. Umsækjendur þurfa að vera sjálfstæðir í vinnubrögðum og búa yfir færni í mannlegum samskiptum. Enskukunnátta í ræðu og riti er skilyrði. Sá sem verður valinn þarf að senda formlega umsókn um doktorsnám á heimasíðu Háskóla Íslands.

Sótt er um starfið hér: www.hi.is/laus_storf. Umsóknarfrestur um stöðuna er til og með 22. maí 2017. Doktorsnemastaðan hefst haustið 2017.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is