Líf- og umhverfisvísindastofnun

Ný grein um genatjáningu í fléttusambýli: Áhrif hitastigs og staðsetningar

Ný grein sem byggir á meistaraverkefni Sarah Sophie Steinhäuser undir heitinu Fungal and cyanobacterial gene expression in a lichen symbiosis: Effect of temperature and location birtist nýverið í tímaritinu Fungal Biology. Leiðbeinendur S. Sophie voru Ólafur S. Andrésson, Silke Werth og Arnar Pálsson.

Leitast var við að svara spurningunni um hvernig umhverfi og breytingar í því hafa áhrif á lífverur og samspil þeirra með því að safna himnuskóf (Peltigera membranacea), sem er lífvera samsett úr sveppi og blágrænbakteríu, frá átta mismunandi stöðum, bæði nærri sjó og til fjalla (sjá mynd). Eftir að hafa jafnað sig í tilraunastofu við 5 ºC, gengu flétturnar í gegnum hitameðferð við 15 ºC og 25 ºC. Síðan voru viðbrögð 38 gena skoðuð, og kom í ljós að einn hópur jók tjáningu við 25 ºC (aðallega sveppgen tengd viðgerðum á próteinum og DNA), en annar hópur dró úr tjáningu þegar við 15 ºC (aðallega tengd DNA viðgerðum í blágrænbakteríum). Seinni hópurinn sýndi einnig meiri viðbrögð eftir því sem land hækkaði og fjarlægð frá sjó jókst. Einnig fundust dæmi um samhliða breytingar í genatjáningu sambýlunganna tveggja.

PCA greining sýndi tvo hópa gena með ólíka svörun við hitaáreiti. Annars vegar sýndu DNA gen tengd DNA viðgerðum í blágrænbakteríunni og sveppgenið lec2 (PC1 hópur) svipað fall í tjáningu við 15°C miðað við 5°C, en hins vegar sýndu flest sveppgenin (PC2 hópur) aukna tjáningu við 25°C miðað við 5°C. Jafnframt sýndi tjáning PC1 genanna  meiri samsvörun við hæð en milli megin vistgerða. Samsvörun í tjáningu lec2 og DNA viðgerðargena blágrænbakteríunnar gæti bent til samspils milli sambýlunganna sem vert er að skoða betur.

Hér má nálgast greinina í heild: http://dx.doi.org/10.1016/j.funbio.2016.07.002

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is